Bajondillo Apartments
Hótellýsing

Bajondillo er mjög vel staðsett hótel alveg við Bajondillo ströndina. Verslanir, barir og veitingastaðir eru í göngufæri svo stutt er í hringiðu mannlífsins. Þetta hefur um áraraðir verið eitt vinsælasta hótel Heimsferða á Costa del Sol.

Hér er móttakan opin allan sólarhringinn og hægt að fá upplýsingar um ýmislegt sem kemur að gagni.

Hægt er að bóka stúdíó íbúðir eða íbúðir með einu svefnherbergi. Allar eru stílhreinar og innréttaðar í einföldum stíl. Loftkæling, sjónvarp og öryggishólf (gegn gjaldi) er meðal þess sem finna má í íbúðunum. Baðherbergi eru auk þess með hárþurrku og baðkari eða sturtu. Lítill eldhúskrókur ásamt ísskáp er í hverri íbúð og fylgja svalir með garðhúsgögnum. Dagleg þrif eru alla daga utan sunnudaga ásamt því sem skipt er um handklæði. Skipt er á rúmfötum tvisvar sinnum í viku. Í boði er að fá barnarúm gjaldfrjálst.

Hægt er að nýta sér ýmsa þjónustu á hótelinu, m.a. sjálfsafgreiðslu þvottahús. Utanaðkomandi læknisþjónusta er auk þess í boði allan sólarhringinn, gegn gjaldi. 

Góð kaffitería er á hótelinu, en þar er hægt að panta sér morgunverð alla daga frá klukkan 07:30 – 11:00. Að morgunverði loknum eru ýmsir smáréttir seldir sem gott er að gæða sér á. Um miðjan dag hefst barþjónusta og þar eru kokteilarnir í algleymingi. Auk þess er sundlaugarbar í garðinum. Veitingastaður hótelsins, La Braseria er með opið eldhús og hægt að panta girnilega rétti af matseðli. Fyrir þá sem það kjósa er hægt að snæða utandyra með útsýni yfir hafið. Til gamans má geta að gestir geta valið sér sjávarfang úr stóru fersk- og saltvatns fiskabúri og munu matreiðslumenn hótelsins elda það af sinni alkunnu snilld. Hótelið stærir sig einnig af stórum vínkjallara þar sem finna má m.a. eðalvín.

Boðið er upp á fjölbreytta skemmtidagskrá þar sem allir aldurshópar geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Tónleikar, dansleikir og ýmsar aðrar uppákomur. Einnig er borðtennisborð á hótelinu.

Fín sundlaug er í hótelgarðinum ásamt stóru svæði til að slaka á og njóta sólarinnar. Gestir hótelsins hafa auk þess afnot af sólbekkjum sem hægt er að leigja dýnur á gegn auka gjaldi. Einnig er hægt að leigja sér hengirúm gegn gjaldi.

Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.  

Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.

Vinsæll og góður gistivalkostur, alveg við strönd!