Best Jacaranda
Hótellýsing

Best Jacaranda er gott og afar vinsælt, fjölskylduvænt hótel sem leggur mikla áherslu á afþreyingu fyrir börn.

Hótelið er staðsett á góðum stað á Costa Adeje og aðeins í um 500 metra fjarlægð frá Fanabé-ströndinni. Þá er Plaza de Duque verslunarmiðstöðin aðeins í 800 m fjarlægð. Frá hótelinu liggur leiðin niður litla göngugötu að ströndinni, smá brekka sem tekur aðeins í á heimleið. 

Hótelið er stórt, en það tekur stuttan tíma að rata og læra á allt sem þarf að læra. Móttakan er stór og er opin allan sólarhringinn. Hótelið er komið til ára sinna en hefur þó allt til alls til að hafa það sem best í fríinu.

Á hótelinu eru 570 herbergi, öll vel búin öllum helstu þægindum. Herbergin eru rúmgóð og rúma allt að fjóra farþega. Öll eru með sjónvarpi, síma, öryggishólfi, loftkælingu, mini-bar og svölum eða verönd. Á baðherbergi er hárþurrka og ýmist baðkar eða sturta. 

Tvíbýli hér eru tvö minni rúm (1,35cm) ásamt svefnsófa. Hér má bóka hámark tvo fullorðna og tvö börn, einn fullorðinn og tvö börn eða þrjá fullorðna. 

Fjölskylduherbergin eru öðruvísi uppsett heldur en standard herbergin að því leitinu að hér eru annað hvort tvö queen size rúm inn í herbergjum eða minni rúm og svefnsófi. Hér má bóka hámark tvo fullorðna og tvö börn eða þrjá fullorðna og eitt barn. Athugið að öll herbergi eru eitt rými.

Hægt er að panta herbergi með útsýni yfir sundlaugargarðinn gegn aukagjaldi. 

Á hótelinu má finna stóran hlaðborðsveitingastað þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, bar, diskótek, hárgreiðslustofa og sauna. Hér er góð líkamræktaraðstaða undir berum himni við sundlaugina en einnig er aðstaða til að spila tennis, strandarblak, fótbolta og körfubolta. 

Garðurinn er stór og hér eru tvö sundlaugarsvæði með góðri sólbaðsaðstöðu. Alls eru fjórar stórar sundlaugar og tvær barnalaugar. Ein laugin er upphituð allt árið. Fallegur foss tvinnar saman efra og neðra sundlaugarsvæðið. Á fossbrúninni er fallegur sundlaugarbar, einn af nokkrum, og inni í berginu handan við fossinn er bar.

Hægt er að leigja sundlaugarhandklæði gegn gjaldi í móttöku hótelsins. 

Skemmtidagskrá og diskótek er í boði á hverju kvöldi. Nóg er einnig við að vera fyrir börnin; barnaklúbbur, unglingaklúbbur og leikherbergi (e. game room) fyrir unglinga, diskótek og úti- og innileiksvæði. 

Hótelið hefur einnig verið vinsælt af hjólreiðafólki og er það skráð "cycling friendly". 

Athugið að hótelið hentar ekki þeim sem eru að leita af rólegu umhverfi, en hér er mikið um að vera allan daginn og öll kvöld. 

Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.  

Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.