Vel staðsett og einfalt íbúðarhótel í Los Cristianos, einungis tíu mínútna gangur er niður á strönd og stutt í iðandi mannlíf í miðbæ Los Cristianos. Hótelið er vinsælt frekar vegna staðsetningar, frekar en íburðar.
Móttakan er opin allan sólarhringinn en þar er m.a. upplýsingaborð sem veitir ýmsa þjónustu og er hægt t.a.m að bóka sér bílaleigubíl. Á hótelinu er skemmtidagskrá alla daga og barnaklúbbur starfræktur fyrir 4 – 12 ára börn.
Íbúðirnar eru stílhreinar, fallega innréttaðar og eru allar búnar helstu þægindum eins og setustofu með sjónvarpi, öryggishólfi (gegn gjaldi), baðherbergi og verönd með garðstólum og borði. Eldunaraðstaða er í öllum íbúðunum. Ísskápur, eldavél, örbylgjuofn, brauðrist, ketill og kaffivél er þar einnig að finna.
Premium íbúðirnar eru með sturtu á baðherberginu en einnig er þar hárþurrka. Þessar íbúðir hafa einnig loftkælingu og á verönd fylgja sólbekkir og sólhlíf. Flestar (ekki allar) eru nýlega uppgerðar.
Þrjár sundlaugar, ásamt sundlaugarbar eru á hótelsvæðinu og þar af eru tvær sundlaugar upphitaðar yfir vetrarmánuðina. Að auki eru sólbekkir og hengirúm í hótelgarðinum. Þar má einnig finna ýmsa afþreyingu, t.d. mini golf, tennisvöll, körfuboltavöll og strandfótboltavöll auk líkamsræktaraðstöðu á hótelinu.
Á hótelinu er hlaðborðsveitingastaður en á kvöldin er maturinn eldaður fyrir opnum tjöldum. Hægt er að þvo sjálfur sinn þvott gegn gjaldi í sameiginlegum þvottavélum.
Þeir sem kaupa allt innifalið þjónustu fá armband sem þeir þurfa að vera með öllum stundum til að geta gengið í þá þjónustu sem í boði er. Hún innifelur m.a. morgunverðarhlaðborð, ýmsa smárétti í hádeginu, snarl og ís yfir daginn, kvöldverðarhlaðborð og innlenda áfenga drykki, gos, safa, vatn, kaffi og te frá kl. 11:00 – 23:00. Einnig er frítt að stunda þá afþreyingu sem er í boði, gegn tryggingargjaldi sem greiða þarf í móttökunni.
ATH. Þeir sem bóka íbúðir með fæði yfir jólin 2024, fá hádegisverð í stað kvöldverðar á jóladag, 25.12.2024.
Hótelið býður upp á wi-fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.
Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.
Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.