Catalonia Oro Negro
Hótellýsing

Catalonia Oro Negro er mjög vel staðsett hótel á Las Americas svæðinu, um 800 metra frá ströndinni. Las Americas hefur löngum verið þekkt sem afar líflegt svæði sem iðar af mannlífi. Aragrúa veitingastaða, bara og næturklúbba má þar finna sem og „Laugaveginn“ fræga, en það tekur einungis um 10 mínútur að ganga þangað.

Hér er móttakan opin allan sólarhringinn og er til dæmis hægt að leigja sér bílaleigubíl.

Herbergin eru björt, nútímaleg og fallega innréttuð. Í þeim öllum má finna loftkælingu, sjónvarp, síma, og öryggishólf (gegn gjaldi). Inni á baðherbergjum er hárþurrka. Svalir eða verönd fylgja auk þess öllum herbergjum. Premium herbergin eru sérlega rúmgóð og hafa auk þess náttslopp og inniskó, ísskáp, ketil og te og kaffi aðstöðu. Við komu er svo boðið upp á vatn og sætindi. Fjölskylduherbergin eru samliggjandi með opnanlegri hurð á milli, en þau skiptast í tvö 20 m² rými og er sjónvarp í þeim báðum. Panta þarf sérstaklega þessi herbergi.

Ýmsa þjónustu má finna á hótelinu, hér er líkamsræktaraðstaða og hægt að bóka sér nudd gegn gjaldi. Einnig er  hægt að nýta sér þvottaþjónustu gegn gjaldi.

Afþreying fyrir alla aldurshópa og margvíslegar skemmtanir eru í boði, bæði á daginn og kvöldin, svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt er að spila blak, vatnapóló, borðtennis, billiard, pílukast og taka þátt í sundlaugarþreki svo fátt eitt sé nefnt.

Morgunverðarhlaðborð með fjölbreyttum réttum er framreitt alla morgna á Oro Negro veitingastaðnum. Auk þess er svo hægt að fá sér hádegis- og kvöldverð, en eldað er fyrir opnum tjöldum. Athugið að ekki er leyfilegt fyrir karlmenn að klæðast stuttbuxum, sandölum eða ermalausum bolum/skyrtum við kvöldverðarþjónustuna.

Á hótelinu er einnig að finna snarlbar þar sem hægt er að panta sér hamborgara, samlokur, salöt, ís og margt fleira. Kvöldskemmtanir hótelsins fara svo fram við barinn inni á hótelinu.

Stór og góð sundlaug er í hótelgarðinum, sem er upphituð á veturna, ásamt barnalaug. Sérstakt leiksvæði er fyrir börnin við hlið barnalaugarinnar, svo þau allra minnstu geta notið sín til fulls. Sólbekkir, sólhlífar og hengirúm standa hótelgestum til boða, en góða sólarverönd má þar einnig finna. 

Á þaki hótelsins er svokölluð „infinity“ sundlaug og sólarsvæði, en það er einungis ætlað 18 ára og eldri fyrir þá sem eru bókaðir í Premium herbergi.

Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.  

Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.

Góð staðsetning!