Gönguferð á Madeira
Hótellýsing
Gönguferð er skemmtilegur valkostur fyrir þá sem vilja hreyfa sig og sjá nýja staði og fjölbreytt landslag. Ferðir sem slíkar sameina heilsusamlega útivist í nýju og framandi umhverfi og gefa fólki innsýn í líf og staðarhætti upp til sveita. Í þessari ferð verður farið í 6 göngur á ýmsum stöðum á eyjunni. Farið verður í eina kynnisferð um höfuðborgina Funchal en einnig er einn frjáls dagur sem hver og einn getur skipulagt að eigin vild. Miðað er við að sjálfar göngurnar taki á bilinu 3 - 5 tíma en gengnir eru u.þ.b. 7 til 12 km á dag. Gönguferðirnar á Madeira eru yfirleitt farnar á þægilegum stígum umvöfnum litríkum gróðri og blómaangan en gjarnan er gengið meðfram gömlum árveituskurðum sem heimamenn nefna „Levadas“. Hluti af þessum árveituskurðum eru allt frá 16. öld og voru þeir notaðir til að flytja regnvatn frá fjöllunum í norðri til suðurhlutans sem er mun sólríkari og þurrari en sá nyðri. Göngurnar eru fjölbreyttar og ýmist er gengið meðfram rennandi lækjum, um gróðursæla dali með útsýni yfir tignarleg fjöll en einnig kynnumst við landslagi austurhluta eyjunnar þar sem gróðurinn og umhverfið er mjög ólíkt. Gist er á hótelinu Do Carmo (3*) sem er staðsett í miðbæ Funchal í 14 mínútna göngufjarlægð frá strandlínunni. „Gönguferð á Madeira“ er án efa spennandi valkostur til þess að kynnast þessari fallegu eyju.