Hér er um að ræða afar fallegt og stílhreint hótel fyrir 16 ára og eldri. Hótelið stendur nálægt strönd á Costa Adeje svæðinu.
Hótelið er stórt og býður upp á nútímalega og góða þjónustu. Öll sameiginlega aðstaða á hótelinu er til fyrirmyndar. Þegar gengið er inn á hótelið í gegnum aðalinnganginn, eru farþegar staðsettir á 6. hæð hótelsins, en móttakan þar er opin allan sólarhringinn. Allir gestir hótelsins fá armband sem er lykill að herberginu.
Á hótelinu er 505 herbergi sem eru öll rúmgóð og björt. Herbergin eru smekklega innréttuð í ljósum litum og við komuna eru drykkir í kælinum í boði hótelsins. Öll herbergin eru búin sjónvarpi, öryggishólfi, loftkælingu, kaffi- og te aðstöðu, mini-bar (gegn gjaldi) og svölum eða verönd. Baðherbergin eru með sturtu, hárþurrku og stækkunarspegli. Þá eru gestum færð sundlaugarhandklæði upp á herbergi á þriggja daga fresti.
Hér er hægt að bóka Junior svítu – Platinum en þær eru stærri en venjuleg herbergi og hafa að auki Nespresso kaffivél, þráðlausan hátalara og baðkar í herberginu. Einnig er stórt setusvæði með sófa og á baðherbergi eru snyrtivörur frá Ritual, sloppar og inniskór. Hér er skipt um sundlaugarhandklæði daglega. Þessi herbergi eru staðsett á fyrstu tveimur hæðum hótelsins. Hægt er að bóka þessi herbergi með útsýni gegn auka gjaldi.
Á þessu hóteli er Platinum þjónusta sem fylgir Junior svítunum. Þessari þjónustu fylgja ýmis aukin fríðindi en strax við komuna er sér innritunarborð þar sem er vel tekið á móti farþegum með drykk. Farþegar sem gista í viku eða meira fá einu sinni aðgang að heilsulindinni og aðgang að sérstöku Platinum svæði alla dvölina, en þar er að finna gott útsýni yfir hafið, bekki fyrir alla, „Bali-beds“ og infinity sundlaug. Þá hafa þeir sérstakan aðgang að sér veitingastað, Platinum Club, í morgunverð og kvöldverð, sér bar þar sem hægt er að fá drykki og snarl allan daginn og hægt er að velja á milli þriggja veitingastaða fyrir kvöldverð.
Á hótelinu eru þrír veitingastaðir og sex barir svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Þá er hér einnig heilsulind og líkamsræktaraðstaða.
Þrjár góðar sundlaugar eru við hótelið ásamt sundlaugarbar. Sólbaðsaðstaðan er góð og allir farþegar geta tekið frá bekki í gegnum app sem þeir fá aðgang að við komuna á hótelið.
Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.
Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.
Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.