Vinsæll gistivalkostur á Amerísku ströndinni, eingöngu fyrir fullorðna, 18 ára og eldri.
Hótelið er staðsett í göngufæri við miðbæ Amerísku strandarinnar og aðeins 5 mínútur tekur að ganga niður að strönd. Las Américas golfvöllurinn er í 20 mínútna göngufjarlægð og Siam Park er í innan við 2ja km fjarlægð.
Móttakan á hótelinu er björt og stór og er opin allan sólarhringinn. Þar er píanóbar með lifandi tónlist á kvöldin, en þar er einnig boðið upp á veitingar og drykki.
Á hótelinu eru 416 herbergi en hér er hægt að velja um mismunandi herbergistegundir. Öll herbergin eru rúmgóð með stórum rúmum og búin sjónvarpi, mini-bar, loftkælingu, öryggishólfi og svölum eða verönd. Á baðherbergjunum er sturta, snyrtivörur og hárþurrka. Öll standard tvíbýli með og án sundlaugarsýn eru staðsett á fyrstu hæð hótelsins.
ATH. Flestar svalirnar eru litlar.
Tvíbýli – Romance: Þessi herbergi henta einstaklega vel fyrir þá sem vilja algjöra rómantík og nánd. Hér er King size rúm, nuddpottur í miðju herberginu, 47“ flatskjár, tvöföld sturta og vaskur, Nespresso kaffivél og kælir sem fylltur hefur verið með ýmsu góðgæti í boði hótelsins. Á baðherbergi eru sloppar og inniskór. Þessi herbergi eru með sundlaugarsýn og innifalið er hálft fæði exclusive.
Tvíbýli – Exclusive (áður smart): Þessi herbergi eru nýlega uppgerð. Hér er sérstök ljósastýring, 47“ flatskjá, USB/HDMI tenging og Playstation tölva (sérbeiðni). Þessi herbergi eru með sundlaugarsýn og innifalið er hálft fæði exclusive.
Tvíbýli – Deluxe: Þessi herbergi eru nýuppgerð (2023). Hér eru komnar sturtur í stað baðkars í öll herbergi og að auki er kaffi- og te aðstaða. Þessi herbergi er hægt að panta með sundlaugarsýn (gegn gjaldi) og hægt eða velja á milli hálft fæði eða hálft fæði exclusive.
Hótelið býður upp á hálft fæði eða hálft fæði exclusive. Veitingastaðurinn Areca býður upp á innlenda- og alþjóðlega matargerð en eldað er fyrir opnu eldhúsi og þá eru hér haldin þemakvöld í matargerðinni. Opnunartími á kvöldin á sumrin er frá 19.00 - 22.30 en á veturna til 22.00. Þá er hér einnig veitingastaðurinn Santa Rosa Grill, en hann er opinn miðvikudaga – sunnudaga frá 19.00 - 22.30.
Hálft fæði: Innifalið í hálfu fæði er morgunverður og kvöldverður á Areca veitingastaðnum. Hér er hægt að panta klassískan enskan morgunverð. ATH! Drykkir eru ekki innifaldir.
Hálft fæði exclusive: Innifalið í hálfu fæði er morgunverður og kvöldverður á Areca veitingastaðnum. Hér er hægt að panta klassískan enskan morgunverð. Ef bókað er exclusive er hægt að fá 1x kvöldverð (á einni viku) á Santa Rose Grill. ATH! Drykkir eru ekki innifaldir og ekki er boðið upp á þessa þjónustu með standard herbergjum.
Að auki fá þeir sem bóka exclusive aðgang að Exclusive lounge en þar er boðið upp á drykki. Milli 11-18 á daginn er einnig hægt að fá smárétti. Á herbergjum er kaffi og te, baðsloppar og inniskór og drykkir í mini-barnum, vatnsflaska, afsláttur af nuddmeðferðum í heilsulindinni og hægt er að taka frá sólbekk með dags fyrirvara án endurgjalds.
Á hótelinu er einnig bar með lifandi tónlist á kvöldin, sundlaugarbarinn Beach Club og þakbarinn Café del mar. Á báðum stöðum er hægt að fá drykki og léttar veitingar.
Hér er fallegur garður sem býður góða sólbaðsaðstöðu en í garðinum eru þrjár sundlaugar og hægt er að leigja handklæði í móttökunni. Á þakinu er verönd með útsýnislaug og nuddpottum, sólbekkjum, tvíbreiðum sólbekkjum og bar en plötusnúður hótelsins sér um að spila fyrir gestina. ATH. Panta þarf fyrirfram bekki á þakveröndinni.
Heilsulindin er á efstu hæð hótelsins og er því hér fallegt útsýni og mjög góð aðstaða. Í heilsulindinni er hægt að fara í ýmsar nuddmeðferðir, líkamsvafninga, andlits- og fótameðferðir, tyrkneskt bað, svo fátt eitt sé nefnt. Á hótelinu er einnig stór og góð líkamsræktaraðstaða með úrval tækja.
Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.
Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.
Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.