Labranda Bahia Fanabe & Villas
Hótellýsing

Hér er um að ræða mjög vel staðsett íbúðarhótel á Fanabe ströndinni á Costa Adeje svæðinu. Hótelið er í stuttri göngufjarlægð frá ströndinni og í næsta nágrenni er að finna veitingastaði, bari og verslanir. Hótelið er aðeins selt með allt innifalið þjónustu. 

Hótelið er byggt upp eins og lítið þorp, skipt í tvo hluta Zona Canaria Villas og Bahia Villas. Það má sjá að hótelið er komið til ára sinna, en býður góða þjónustu og rúmgóðar íbúðir.

ATH. Hótelið er ekki ætlað þeim sem eiga erfitt með gang þar sem mikið er um stiga og brekkur í garði og að íbúðum.

Eins og áður segir eru íbúðirnar rúmgóðar og eru þær allar búnar helstu þægindum eins og loftkælingu, sjónvarpi, síma, ísskáp, svefnsófa, svölum eða verönd, öryggishólfi (gegn gjaldi) og á baðherbergi er ýmist sturta eða baðkar og hárþurrka. Hægt er að leiga hitaketil gegn gjaldi. 

Á Bahia svæðinu eru íbúðir með einu svefnherbergi á jarðhæð og svítur með einu svefnherbergi á efri hæð. Á Canaria svæðinu eru íbúðir með tveimur svefnherbergjum. 

Á hótelinu er hlaðborðsveitingastaðurinn Bahia sem býður upp morgunverð, hádegismat og kvöldverð. Bæði innlendir sem alþjóðlegir réttir eru í boði. Þá eru hér einnig tveir barir, þar af er einn sjálfafgreiðslubar í móttökunni en þar er einnig leikherbergi (e. game room). Á hótelinu er einnig lítil líkamsræktaraðstaða og á kvöldin er skemmtidagskrá. 

Garðurinn er með sjarmerandi sundlaugasvæði, sundlaugarbar, sólbaðsaðstöðu og einnig er barnalaug. Sundlaugin er upphituð nóvember til lok apríl. 

Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.  

Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.

Einfalt íbúðarhótel á góðri staðsetningu