Labranda Suites Costa Adeje
Hótellýsing

Hér er um að ræða glæsilegt hótel, sem var algjörlega tekið í gegn árið 2021. Hótelið er staðsett á Fanabe ströndinni, við hliðina á vinsæla hótelinu Best Jacaranda. Hótelinu er skipt í tvö svæði, annars vegar svæði aðeins fyrir fullorðna og svæði fyrir fjölskyldur, en sameiginleg innritun er við komuna. 

ATH. Hér má ekki fara á milli svæða, heldur er aðeins þjónustan á því sem bókun er gerð á, í boði. Þjónustan er eins báðum megin fyrir utan að á fjölskyldusvæðinu er meira lagt upp úr fjölskylduvænni skemmtun og á fullorðins svæðinu er rólegra og aðeins fyrir 18 ára og eldri.

Fullorðins svæði
Hér er boðið upp á svítur sem eru rúmgóðar eða um 40 fm og rúma hámark þrjá fullorðna. Þeim er skipt upp í svefnherbergi og stofu og er sjónvarp inn í herberginu. Allar eru snyrtilega innréttaðar á nútímalegan hátt. Í öllum má finna loftkælingu, mini-bar, síma, ketil, kaffivél, straujárn og strauborð, öryggishólf (gegn gjaldi) og svalir. Á baðherbergi er sturta og hárþurrka. Hægt er að panta svítu með sundlaugarsýn eða garðsýn gegn auka gjaldi. 

Svítan með garðsýn er með litlum grasblett fyrir framan hjá sér og eru það sólbekkir og sólhlíf. 

Junior svíta deluxe með sjávarsýn er aðeins í boði fyrir fullorðna. Þær hafa að auki sjávarsýn og baðkar og sturtu. Þá er hér svefnherbergið ekki lokað, heldur er aðeins stúkað af herbergið og baðherbergið og rýmið allt miklu opnara. Skemmtilegt rými fyrir pör. 

Í garðinum er sundlaug (upphituð á veturna), sundlaugar- og snarlbar. Þá er hér einnig slökunarsvæði með lítilli laug og Bali rúmum. 

Þeir sem eru á þessu svæði hafa aðgang The Sail bar sem er með tónlist og góðu andrúmslofti.

Fjölskyldusvæðið
Hér er boðið upp á fjölskyldusvítur sem eru rúmgóðar eða um 40 fm og rúma hámark þrjá fullorðna og eitt barn. Þeim er skipt upp í svefnherbergi og stofu og er svefnsófi í stofunni. Allar eru snyrtilega innréttaðar á nútímalegan hátt. Í öllum má finna loftkælingu, mini-bar, síma, ketil, kaffivél, straujárn og strauborð, öryggishólf (gegn gjaldi) og svalir. Á baðherbergi er sturta eða baðkar og hárþurrka. Hægt er að panta fjölskyldusvítu með sjávarsýn, sundlaugarsýn eða garðsýn gegn auka gjaldi. 

Fjölskyldusvítan með garðsýn er með beinum aðgangi í garðinn og smá verönd fyrir framan. 

Í garðinum eru tvær sundlaugar, barnalaug (upphitaðar á veturna) og snarlbar. Þá er hér einnig vatnaleiksvæði fyrir börn og íþróttavöllur. 

Á fjölskyldusvæðinu er starfandi barnaklúbbur (4-12 ára) og unglingaklúbbur (12-16 ára) en þar er til dæmis fótboltaspil og Nintendo tölva.

Sameiginleg svæði
Í miðju hótelsins er sameiginlegt svæði með bar og setusvæði, sem allir mega nýta. Sunset Champagne Lounge sem er staðsett á þaki hótelsins með slökunarsvæði, kokteilabar og dásamlegu útsýni, mega allir fullorðnir (18+) nota óháð hvaða herbergistýpu þeir eru bókaðir í. 

Heilsulind hótelsins er staðsett á fullorðinssvæðinu en allir fullorðnir (18+) geta notað hana en þar er líkamsræktaraðstaða og hægt er að kaupa allskonar meðferðir gegn auka gjaldi. Panta þarf tíma fyrirfram. 

Sameiginlegur hlaðborðsveitingastaður El Paladar er á hótelinu með „show cooking“ og fjölbreyttu fæði frá ýmsum landshornum. Á veitingastaðnum er pizza- og pastaborð og sér borð sem börn eiga auðvelt með að sækja sér mat sjálf. Hér eru þó sér svæði innan veitingastaðarins fyrir aðeins fullorðna og sér fyrir fjölskyldur.  

La Cucina di Luigi, er snarlbar sem er opinn frá 12-16 alla daga fyrir þá sem eru í allt innifalið þjónustu. Þeir sem eru með hálft fæði geta þó keypt sér snarl gegn gjaldi. 

Þá er hér einnig ítalskur „A la carte“ veitingastaður sem allir hafa aðgang að og þeir sem eru í allt innifalið þjónustu fá eina máltíð á meðan á dvöl þeirra stendur innifalda. 

Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.  

Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.

Glæsilegt hótel sem býður góða þjónustu