Sirios Village
Hótellýsing

Hótelið sjálft er einungis um 4 km frá miðbæ Chania og ekki er nema um 1 km að miðkjarna Galtasþorpsins þar sem maður kemst í snertingu við ekta gríska menningu heimamanna. Frá garðinum eru um 550 metrar niður á strönd sem er við Agioi Apostoloi svæðið, en þar er að finna tvær fallegar strendur sem mynda litlar víkur og skógivaxið útivistasvæði með leiksvæði fyrir börnin. Athugið þó að gatan sem hótelið stendur við er upp í hæð og vegurinn sem liggur niður að ströndinni því nokkuð brattur. 

Eftir flugið sjálft þá er ekki verra að það þarf ekki að fara lengra en 14 km frá flugvellinum til að komast á áfangastað. 

 

Herbergin eru misjafnlega innréttuð en öll snyrtileg og öll með svölum eða verönd. Þau eru ýmist staðsett í aðalbyggingunni eða í smáhýsunum víðs vegar um garðinn. Öll eru herbergin með loftkælingu, kæliskáp, sjónvarpi, síma og öryggishólfi (gegn gjaldi) og baðherbergi með sturtu eða baðkari og hárþurrku. 

Heimsferðir bjóða uppá bæði tvíbýli og fjölskylduherbergi, ásamt superior tvíbýli með lítilli einkasundlaug. 

Í fallegum garðinum má finna eina stóra sundlaug og þrjár barnalaugar, þar af er ein stór með rennibrautum og ein sérstaklega ætluð þeim allra minnstu og er mesta dýptin þar 40 cm, ásamt leiksvæði fyrir börn. Einnig er góð sólbaðstaðstaða með sólbekkjum og sólhlífum. 

Á hótelinu má einnig finna líkamsræktaraðstöðu, gufubað (sauna), tyrkneskt bað (Hamam) og svo er aðstaða þar sem boðið er upp á nudd. Tennis- og blakvöllur eru til staðar en einnig er hægt að spila borðtennis, skák, pílukast eða billiard. Engin formleg skemmtidagskrá er í boði á hótelinu en þó eru einhverjar skemmtanir nokkrum sinnum í viku á kvöldin sérstaklega ætlaðar yngri kynslóðinni. 

Sirios Village er “allt innifalið” gististaður sem þýðir að allan liðlangan daginn er hægt að nálgast drykki, mat eða snarl.  Á hótelinu er hlaðborðsveitingastaður með fjölbreyttu hlaðborði og mismunandi þemakvöldum en að auki er einn a la carte veitingastaður á svæðinu (ekki innifalinn) með góðum vínkjallara og miklu úrvali af víni (gegn aukagjaldi). Morgunmatur er í amerískum „buffet“ stíl, í garðinum er einnig að finna sundlaugabar og snakkbar þar sem boðið er upp á drykki, snarl og ís. 

AF HVERJU OKKAR VAL 

Sirius Village er vinalegt fjölskylduhótel og hentar bæði fyrir ungu börnin og þessi sem eru eldri. Það er oft vandasamt að geðjast öllum þegar boðið er upp á allt innifalið í mat en á Sirios Village gera þeir þetta ótrúlega vel og fólk er mjög ánægt með matinn á hótelinu.