Sólarströndin Costa del Sol býður upp á skemmtilega áfangastaði fyrir alla fjölskylduna
Costa del Sol er tvímælalaust einn af vinsælustu áfangastöðum Íslendinga í sólinni, enda býður Costa del Sol úrval gististaða, veitingastaða og skemmtunar. Héðan er örstutt að skreppa yfir til Afríku og Gíbraltar og töfrar Andalúsíu heilla alla þá sem henni kynnast. Á Costa del Sol er góð aðstaða fyrir ferðamanninn og einstakt loftslag. Ströndin hefur ár eftir ár verið valin hreinasta strönd Evrópu og fyrir þá sem vilja upplifa menningu, tónlist og fagra byggingarlist er Andalúsía sá staður Spánar sem hefur mest að bjóða, enda er hér að finna sterkustu sérkenni spænskrar menningar.
Heimsferðir bjóða upp á fjölda gistivalkosta á fimm svæðum strandlengjunnar. Svæðin eru Estepona, Marbella, Fuengirola, Benalmádena og Torremolinos.
Enginn fararstjóri er á vegum Heimsferða á Costa del Sol 2024
Torremolinos
Torremolinos er tvímælalaust okkar allra vinsælasta svæði á Costa del Sol. Bærinn er staðsettur í stuttri keyrslu frá flugvellinum og einfalt er að taka lest í allar áttir frá Torremolinos. Hér er aðalgatan Calle San Miguel sem liggur í stigum og stuttri brekku upp í miðbæ, en í miðbænum og á göngugötunni má finna ótrúlegt magn af veitingastöðum og verslunum. Hér eru einnig fjöldinn allur af börum og skemmtistöðum, en einn vinsælasti bar Íslendinga hér er Viking Bar, sem er lítill fjölskyldurekinn bar með góða drykki og einstaka þjónustu. Barinn er staðsettur alveg við Plaza Nogalera, sem er aðaltorgið í miðbænum, en þar er meðal annars lestarstöðin staðsett. Ströndin í Torremolinos er löng og góð, en hér eru chiringuitos eða strandbarir með fram allri lengjunni.
Benalmádena
Benalmádena er að koma mjög sterkt inn hjá Íslendingum síðustu ár. Hér er mikið líf og mikið um að vera allan daginn og fyrir allan aldurshóp. Arroyo de la Miel er lítill kjarni sem mætti kalla „miðbæ“ Benalmádena. Þar er að finna verslanir, kaffihús og veitingstaði. Frá Arroyo liggja leiðir niður að strönd, en á leiðinni má einnig finna ótal veitingastaði og verslanir. Hótel Heimsferða eru staðsett neðarlega í Benalmádena eða nær ströndinni heldur en Arroyo. Hér er mjög lífleg snekkjubátahöfn, Puerto Marina, sem hefur mikið upp á að bjóða í mat, drykk og verslunum. Á næturnar breytist höfnin í skemmtistað og klúbbarnir opna. Hér er einnig 24h square, en það er torg staðsett í um 10 mínútna göngufæri upp frá Puerto Marina. Torgið hefur fjöldann allann af skemmtistöðum og klúbbur og er tilvalinn staður fyrir unga fólkið.
Fuengirola
Fuengirola er tilvalinn staður fyrir fjölskyldur. Hér eru Heimsferðir með góð íbúðarhótel í boði. Fuengirola er í um 20 mínútna keyrslu frá flugvellinum og hér eru mjög góðar strendur, en Spánverjar sækja mest í strendurnar hér, enda breiðar og fallegar. Í Fuengirola er mikið um vatnaíþróttir í boði á ströndunum, köfun og rennibrautir á miðju hafinu. Þá er hér einnig dýragarðurinn Biopark og Myramar verslunarmiðstöðin.
Marbella
Marbella er staðsett í um 50 mínútna keyrslu frá flugvellinum. Hér sækir fræga fólkið kvikmyndahátíðir og sumarhús, en hér er einnig mikið um góða sértæka háskóla. Marbella er lúxus staður með lúxus vörumerkjum á hverju horni. Hér er mjög falleg snekkjubátahöfn með veitingastöðum, verslunum og börum og hægt er að taka bát til Puerto Banús. Á þetta svæði sækja mikið af golfurum, enda mikið af góðum golfvöllum í kring.
Estepona
Estepona er staðsett í um klukkustundar fjarlægð frá flugvellinum. Estepona er strandbær og gamalt fiskiþorp en er sett upp eins og lítið þorp, með litlum, litríkum og þröngum göngugötum um allan bæ. Hér er mikið um veitingastaði og bari, en aðal verslunargöturnar eru á Calle Real eða Calle Terraza en þær eru staðsettar í miðbænum. Hér er mikið af götumörkuðum á sunnudögum og einhverjir á miðvikudögum. Hótel Heimsferða eru staðsett á milli Estepona og Marbella eða aðeins í útjaðri Estepona. Við ráðleggjum því fólki sem kýs að vera á þessu svæði að vera með bíl til leigu ef það þarf að ferðast inn í Málaga til dæmis. Lestin fer ekki til Estepona beint frá Málaga.
Málaga
Málaga er í næsta nágrenni, en í hina áttina frá flugvellinum. Borgin er yndisleg og heillandi stórborg, sem hefur upp á svo mikið að bjóða en undanfarin ár hefur hún verið í yfirhalningu. Hún er ein elsta borg Spánar og uppfull af menningu og andrúmslofti stórborgar, en saga hennar spannar ótrúlega langt aftur í tímann. Listmálarinn Picasso fæddist í borginni og er nærveru hans alls staðar að finna í hverjum krók og kima. Borgin er róleg og örugg, en mikið er af merkum minjum eins og rómverskt hringleikahús í gamla bænum, márískur kastali sem trónir yfir borginni og Pompidou safnið auk 12 annarra listasafna einkenna þessa fallegu borg. Málaga er falinn gimsteinn Andalúsíu. Borgin er einnig þekkt fyrir lágt verðlag, frábærum verslunum auk þess sem þar er að finna aragrúa af gæða veitingastöðum og ekta Tapas börum. Hægt er að taka lestina beint inn í miðbæ Málaga frá Fuengirola, Benalmádena og Torremolinos.
Smelltu hér til að skoða hagnýtar upplýsingar um Costa del Sol
Costa del sol er kjörinn staður fyrir alla og á öllum aldri en hér er að finna skemmtilega afþreyingu úr öllum áttum
Aqualand Torremolinos | Aqualand er staðsett í Torremolinos og er skemmtilegur vatnsrennibrautargarður fyrir alla fjölskylduna |
Crocodilos Park | Crocodilos Park er staðsett við hliðina á Aqualand í Torremolinos, en þar er hægt að heimsækja krókódíla og önnur skemmtileg dýr. |
Viking Bar | Lítill, fjölskyldurekinn bar staðsettur í miðbæ Torremolinos. Íslendingar sækja mikið hingað fyrir góða drykki, gott verðlag og einstaka þjónustu. |
Sea Life | Sea Life er staðsett á Puero Marina í Benalmádena. Skemmtilegt sædýrasafn. |
Puerto Marina | Snekkjubátahöfn með ótal veitingastöðum, börum, verslunum og á næturnar opna klúbbarnir. |
Mijas Aqua Park | Hér er um að ræða vatnsrennibrautargarð staðsettan í Mijas þorpinu. |
Bioparc Fuengirola | Skemmtilegur dýragarður staðsettur í Fuengirola. |
Verslanir | Á svæðum okkar á Costa del Sol er að finna allskonar verslanir á öllum götuhornum. Til þess að komast í verslunarmiðstöð með öllum þekktustu verslununum er best að fara til Málaga eða Fuengirola en þar má meðal annars finna verslunarmiðstöðina Myramar Centro Comercial (Fuengirola), Málaga Maria-Zambrano og Centro Comercial Larios Centro, en þær eru staðsettar sitthvoru megin við aðalgötu. |
*Vert er að taka fram að þessar ferðir eru ekki á vegum Heimsferða, heldur aðeins hugmyndir um áhugaverða staði. Heimsferðir bera ekki ábyrgð á miðakaupum.*